Barentsráðið

Barentsráðið (Barents Euro-Arctic Council, BEAC) var stofnað að frumkvæði Norðmanna árið 1993 með það fyrir augum að efla samstarf um sameiginleg hagsmunamál Barentshafs og aðliggjandi svæða í Norðvestur-Rússlandi, norðurhluta Skandinavíu og Finnlandi. Svonefnt Barentssvæði er þéttbýlasta svæðið á norðurslóðum með um 5,9 milljónir íbúa. Allar Norðurlandaþjóðirnar eiga aðild að Barentsráðinu ásamt Rússlandi og Evrópusambandinu. Systursamtök á sveitarstjórnarstigi, Byggðasamband Barentssvæðisins (Barents Regional Council, BRC) voru stofnuð á sama tíma og er náin samvinna þar á milli.

Aðild Íslands og Danmerkur að Barentsráðinu verður m.a. rakin til sjávarútvegshagsmuna Íslendinga, Færeyinga og Grænlendinga þar sem eitt af verkefnum ráðsins er að sporna gegn sjávarmengun frá gömlum hernaðarmannvirkjum frá tímum kalda stríðsins og umhverfisspjöllum af völdum iðnaðarumsvifa og auðlindanýtingar á svæðinu. Jafnframt hefur verið talið mikilsvert að Norðurlöndin taki sameiginlega þátt í svæðasamstarfi af þessu tagi.

Mikilvægi Barentsráðsins sem samstarfsvettvangs Norðurlandanna og Rússlands hefur vaxið hröðum skrefum frá stofnun þess, samhliða auknum efnahagslegum umsvifum og auðlindanýtingu á svæðinu. Fjöldi starfshópa er starfræktur á vegum ráðsins um efnahagssamvinnu, tollamál, umhverfismál, æskulýðsmál, flutninga og björgunarmál. Margir starfshópar til viðbótar eru starfræktir á vegum Byggðasambands Barentssvæðisins eða í samvinnu við það um heilbrigðis- og þjóðfélagsmál, menntun og rannsóknir, orkumál, menningu o.fl . Vaxandi áhugi er á starfi Barentsráðsins í öðrum heimshlutum og hafa eftirfarandi ríki fengið áheyrnaraðild að því: Bandaríkin, Bretland, Kanada, Frakkland, Holland, Ítalía, Japan, Pólland og Þýskaland. Opnuð var skrifstofa ráðsins í Kirkenes í Norður-Noregi árið 2008.

Miklu skiptir að vaxandi umsvif Barentsráðsins sem staðbundins vettvangs norðurslóðasamstarfs í norðanverðri Evrópu verði ekki til þess að grafa undan mikilvægi Norðurskautsráðsins sem höfuðvettvangs samstarfs norðurskautsríkja. Í yfirlýsingum ráðsins og starfslýsingu kemur fram að samráð skuli haft við Norræna ráðherraráðið, Eystrasaltsráðið og Norðurskautsráðið eftir því sem þörf krefur. Nauðsynlegt er að efla samráð og samvinnu Barentsráðsins við Norðurskautsráðið og finna því fastari farveg. Íslendingar hafa verið talsmenn þess að Barentsráðið verði tengt inn í Norðurskautsráðið með formlegum hætti t.d. með sameiginlegum ráðherrafundi beggja ráðanna. Slíkt þyrfti ekki að draga úr mikilvægi Barentssamstarfsins. Þvert á móti gæti það orðið til að styrkja stoðir þess enn frekar í víðara samhengi, þar sem komist yrði hjá tvíverknaði og betri nýting næðist fyrir mannauð og fjármagn.

Texti af vef utanríkisráðuneytisins.

Icelandic Arctic Cooperation Network | Borgum | 600 Akureyri
☎ 460 8935 ✉ iacn@arcticiceland.is
www.arcticiceland.is | kt. 620113-0690

Hosted and Designed by the Arctic Portal