Stefna Íslands í málefnum norðurslóða

Ísland hefur markað sér ákveðna stefnu í málefnum norðurslóða. Árið 2011 lagði þáverandi utanríkisráðherra fram þingsályktunartillögu til Alþingis þar sem stefnan var útlistuð og hún samþykkt.

link icon arciceblue   Heildartexti stefnunnar

Stefnan miðar að því að tryggja hagsmuni Íslands með tilliti til:

 • áhrifa loftslagsbreytinga
 • umhverfis- og auðlindamála
 • siglinga og samfélagsþróunar
 • auk þess að efla tengsl og samstarf við önnur ríki og hagsmunaaðila um málefni svæðisins.

Utanríkisráðuneytið fer með framkvæmd og þróun stefnunnar í samstarfi við önnur hlutaðeigandi ráðuneyti, sem og sérfræðistofnanir og samtök um málefni norðurslóða, og hefur jafnframt samráð við utanríkismálanefnd og umhverfisnefnd Alþingis um útfærslu stefnunnar eftir því sem aðstæður krefjast.

Stefnan felur í sér tólf meginþætti (stytt útgáfa):

 1. Að efla og styrkja Norðurskautsráðið sem mikilvægasta samráðsvettvanginn um málefni norðurslóða.
 2. Að tryggja stöðu Íslands sem strandríkis innan norðurskautssvæðisins hvað varðar áhrif á þróun og alþjóðlegar ákvarðanir um málefni svæðisins á grundvelli lagalegra, efnahagslegra, vistfræðilegra og landfræðilegra raka.
 3. Að efla skilning á skilgreiningu norðurslóða.
 4. Að byggja á hafréttarsamningi Sameinuðu þjóðanna við úrlausn álitaefna sem upp kunna að koma í tengslum við norðurslóðir.
 5. Að styrkja og auka samstarf við Færeyjar og Grænland með það fyrir augum að efla hag og pólitískt vægi landanna þriggja.
 6. Að styðja réttindi frumbyggja á norðurslóðum í nánu samstarfi við samtök þeirra og styðja beina aðild þeirra að ákvörðunum um málefni svæðisins.
 7. Að byggja á samningum og stuðla að samstarfi við önnur ríki og hagsmunaaðila um málefni er varða hagsmuni Íslands á norðurslóðum.
 8. Að vinna með öllum ráðum gegn loftslagsbreytingum af manna völdum og áhrifum þeirra og tryggja þannig bætta velferð íbúa og samfélaga á norðurslóðum.
 9. Að gæta öryggishagsmuna í víðu samhengi á norðurslóðum á borgaralegum forsendum og vinna gegn hvers konar hervæðingu norðurslóða.
 10. Að byggja upp viðskiptasamstarf ríkja á norðurslóðum.
 11. Að auka þekkingu Íslendinga á málefnum norðurslóða. Að efla og styrkja miðstöðvar, rannsóknarsetur og menntastofnanir um norðurslóðir á Íslandi í samstarfi við önnur ríki og alþjóðastofnanir.
 12. Að auka innlent samráð og samstarf um málefni norðurslóða til að tryggja aukna þekkingu á vægi norðurslóða, lýðræðislega umræðu og samstöðu um framkvæmd norðurslóðastefnu stjórnvalda.

 

Icelandic Arctic Cooperation Network | Borgum | 600 Akureyri
☎ 460 8935 ✉ iacn@arcticiceland.is
www.arcticiceland.is | kt. 620113-0690

Hosted and Designed by the Arctic Portal